Erlent

Fyrsta ökuferð Perseverance á rauðu reikistjörnunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Hjólför eftir Perseverance í sandinum á Mars 4. mars 2021.
Hjólför eftir Perseverance í sandinum á Mars 4. mars 2021. NASA/JPL-Caltech/AP

Bandaríski könnunarjeppinn Perseverance notaði hjól sín í fyrsta skipti og ók stuttan spöl á reikistjörnunni Mars í gær. Enn er verið að búa tæki og tól jeppans fyrir fimmtán kílómetra langt ferðalag um yfirborð reikistjörnunnar næstu tvö árin.

Tvær vikur eru liðnar frá því að Perseverance lenti heilu og höldnu í Jezero-gígnum nærri miðbaugi Mars. Meginmarkmið leiðangursins er að leita að ummerkjum um lífverur sem kunna að hafa þrifist á Mars þegar þar var lífvænlegra í fyrndinni.

Jeppinn fór ekki langt í, aðeins um sex og hálfan metra í heildina. Hann ók áfram, sneri sér við á staðnum 150 gráður og bakkað svo aðeins. Ökuferðin tók alls um 33 mínútur, að sögn AP-fréttastofunnar.

Engu að síður segja leiðangursstjórarnir um að merkan áfanga sé að ræða. Könnun Mars sé nú formlega hafin.

„Maður getur séð hjólförin sem við höfum skilið eftir okkur á Mars. Ég held að ég hafi aldrei verið svo glaður að sjá hjólför,“ segir Anais Zarifian, verkfræðingur við Perseverance-leiðangurinn.

Enn er verið að skoða hvaða leið jeppanum verður ekið til að koma að jarðmyndunum sem vísindamennirnir hafa áhuga á að kanna nánar. Þeir vonast til þess að finna jarðlög sem gætu haft að geyma leifar af lífverum.

Næsta stóra verkefni Perseverance er þó að senda á loft litla þyrlu sem á verða fyrsta vélmennið til þess að fljúga á öðrum hnetti í sólkerfinu. Jeppanum verður ekið að hentugu svæði næstu vikurnar áður en þyrlan Ingenuity hefur sig á loft í fyrsta skipti.

Áætlað er að Perseverance aki um fimmtán kílómetra næsta Marsárið sem er um það tvö tvö jarðár. Jeppinn er sá hraðskreiðasta sem sendur hefur verið til Mars, fyrst og fremst vegna framfara sem hafa orðið í sjálfstýringu frá því að sá síðasta var hannaður og lent á reikistjörnunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir

NASA birtir myndband af lendingu Preseverance á Mars

NASA birti í dag myndband af sögulegri lendingu vélmennisins Preseverance á Mars í síðustu viku. Myndbandið sýnir síðustu mínúturnar af, að margra mati spennuþrungnum, aðdragandanum að lendingunni og af lendingunni sjálfri þegar hjól vélmennisins, eða geimjeppans, snertu loks yfirborð plánetunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×