Fótbolti

Gefur nýjum þjálfara Breiðabliks ellefu af tíu mögulegum í einkunn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er einn fjögurra leikmanna Íslandsmeistara Breiðabliks sem eru farnir í atvinnumennsku.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir er einn fjögurra leikmanna Íslandsmeistara Breiðabliks sem eru farnir í atvinnumennsku. vísir/hulda margrét

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, leikmaður Bayern München, hefur litlar áhyggjur af sínum gömlu liðsfélögum í Breiðabliki í sumar.

Blikar urðu Íslandsmeistarar í fyrra en hafa síðan þá misst ansi sterka leikmenn. Auk Karólínu eru Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir farnar í atvinnumennsku og þá er markvörðurinn og fyrirliðinn Sonný Lára Þráinsdóttir hætt.

„Þeir eru búnir að missa nokkur mörk,“ sagði Karólína en þær, Berglind, Sveindís og Alexandra skoruðu fjörutíu af 66 mörkum liðsins í Pepsi Max-deildinni á síðasta tímabili.

„En ég hef engar áhyggjur af þessu. Það eru líka margir stórir póstar að koma inn. Það gleymist oft,“ sagði Karólína og vísaði þar til Ástu Eirar Árnadóttur, Hildar Antonsdóttur, Selmu Sólar Magnúsdóttur og Fjollu Shollu sem voru fjarverandi í fyrra vegna meiðsla og barneigna.

„Þetta eru ekkert litlir leikmenn en auðvitað er erfitt að missa svona mikið og fá líka nýjan þjálfara. En ég veit að Blikar fengu geggjaðan þjálfara,“ sagði Karólína.

Nýi þjálfarinn sem tók við Breiðabliki eftir að Þorsteinn Halldórsson var ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins heitir Vilhjálmur Kári Haraldsson. Karólína þekkir hann ágætlega en hann er pabbi hennar.

„Ég gef þjálfaranum ellefu af tíu mögulegum í einkunn,“ sagði landsliðskonan hlæjandi.

En kom það henni á óvart að pabbi hennar skyldi taka við Breiðabliki?

„Karlinn var náttúrulega hættur. En ég er ánægð með að mamma hafi leyft honum að taka allavega eitt ár. En hann er frábær þjálfari og þetta er geggjað tækifæri fyrir hann, til dæmis að sýna sig í Meistaradeildinni,“ sagði Karólína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×