Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, horfði upp á liðið sitt gera þriðja markalausa jafntefli í röð í gærkvöldi að þessu sinni á móti Crystal Palace á Selhurst Park.
Tvö töpuð stig hjá Manchester United þýðir að liðið er nú fjórtán stigum á eftir toppliði Manchester City en nágrannarnir mætast á sunnudaginn kemur.
Manchester United hefur ekki skorað í þremur síðustu leikjum sínum en ekki fengið mark á sig heldur. Solskjær var spurður út í gengi liðsins eftir leik.
Man United are 'sleepwalking' into a battle for Champions League qualification, Gary Neville claims https://t.co/wrtqdb7HQh
— MailOnline Sport (@MailSport) March 3, 2021
„Auðvitað er þetta áhyggjuefni,“ sagði Ole Gunnar Solskjær við breska ríkisútvarpið.
„Þegar þú heldur marki þínu hreinu í þremur leikjum í röð þá ætti það að hjálpa þér að vinna leiki en við höfum ekki sýnt nægileg gæði,“ sagði Solskjær.
„Við verðum bara að finna neistann aftur, leita uppi gæðin okkar og reyna að vinna leiki,“ sagði Solskjær.
Þrátt fyrir aðeins þrjú stig út úr síðustu þremur leikjum þá er United ennþá í öðru sætinu, nú einu stigi á undan Leicester City.
Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United, sakaði liðið um að ganga í svefni og bjóða upp á frammistöðu sem mun gefa keppinautunum aukakraft.
„Þetta var ekki gott kvöld fyrir United. Það skiptir ekki máli hver er við stjórnina. Liðið má ekki spila leiðinlegan bolta og þetta var leiðinlegt. Þeir ganga í svefni í þessum leikjum. Þeir eiga eftir að dragast niður í baráttuna um efstu fjögur sætin ef þeir passa sig ekkii,“ sagði Gary Neville á Sky Sports eftir leikinn.