Innlent

Tjóna­til­kynningar orðnar átján og margir að yfir­fara tryggingar

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Vísir

Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur fengið 18 tilkynningar um tjón vegna skjálftana. Þá eru margir að yfirfara innbús-og heimilistryggingar sínar hjá tryggingafélögunum. 

Náttúruhamfaratrygging Íslands hefur fengið 18 tilkynningar um tjón af völdum jarðskjálftahrinunnar sem nú stendur yfir. Ein tilkynning er vegna innbús og 17 vegna húseigna. 

Hulda Ragnheiður Árnadóttir framkvæmdastjóri segir ekki um mikið tjón að ræða.

„Tjónatilkynningar eru að berast víða að, frá Grindavík, frá Suðurnesjum og einnig héðan úr höfuðborginni,“ segir Hulda. 

Fólk verður að hafa innbús-og heimilistryggingu þar sem brunatrygging er innifalin til að fá tjón á innbúi bætt. Hulda segir marga vera að kanna sína stöðu hjá vátryggingarfélögunum.

„Ég hef verið í sambandi við öll tryggingafélögin í morgun og það er mjög mikil hreyfing. Fólk er í fyrsta lagi að kanna hvort að það sé með tryggingu sem gildir í þessum aðstæðum. Það er líka að kanna hver vátryggingarfjárhæðin er.  Það er mikilvægt að hún endurspegli þau verðmæti sem að fólk á. Það getur verið afar erfitt fyrir fólk ef tyggingarfjárhæðin endurspeglar engan veginn það tjón sem hefur orðið, “ segir Hulda.   

Aðspurð hvort að núverandi jarðskjálftahrina geti jafnvel haft áhrif á fráveitukerfi húsnæðis svarar Hulda.

„Þessi hristingur sem er ekki að valda verulegu tjóni á innbúi er ekkert líklegri til að valda tjóni á fráveitukerfum. Við erum sem betur fer með svo góða staðla hér á landi að byggingar  eiga að standa af sér jarðskjálfta, mikið vindálag og snjóþyngsli. Almennt eru byggingar það sterkar að þær þola þetta og það sama á við um fráveitulagnirnar,“ segir Hulda. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×