Innlent

Jóna Þór­ey kjörin ung­menna­full­trúi Ís­lands hjá SÞ á sviði mann­réttinda

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jóna Þórey Pétursdóttir, nýkjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda.
Jóna Þórey Pétursdóttir, nýkjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda. Aðsend/Ari Páll Karlsson

Jóna Þórey Pétursdóttir var í gær kjörin nýr ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda. Kjörið fór fram á sambandsþingi Landssambands ungmennafélaga en hún var tilnefnd fyrir hönd Ungra jafnaðarmanna.

Sem ungmennafulltrúi Íslands mun Jóna Þórey sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í september fyrir hönd ungs fólks á Íslandi.

Jóna segir í samtali við fréttastofu að hún fari auðmjúk inn í þetta hlutverk.

„Á tímum þar sem öfgaöfl gera atlögu að lýðræðinu þarf að standa vörð um mannréttindi. Fulltrúar Íslands geta verið leiðandi og hvetjandi fyrir alþjóðasamfélagið en þurfa líka að þora að segja hlutina eins og þeir eru, það er enn langt í land þegar kemur að kynjajafnrétti, viðunandi lífsskilyrðum fólks og áfram mætti telja,“ segir Jóna.

Jóna Þórey er forseti Rannveigar – Ungra jafnaðarmanna í Kópavogi og hefur hún gefið kost á sér á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi í næstu Alþingiskosningum. Jóna var forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands árin 2019-2020 og barðist hún þar meðal annars fyrir mannúðlegra háskólasamfélagi og mótmælti tanngreiningum á fylgdarlausum ungmennum og börnum á flótta í samstarfi við No Borders Iceland að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Jóna kom einnig að skipulagningu jafnréttisþings forsætisráðuneytisins árið 2020 og tók þátt í pallborði á Women Political Leaders Forum. Þá sótti hún loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna 2019.

Jóna hlaut nýverið inngöngu í meistaranám í mannréttindalögfræði (e. Human Rights Law) við háskólann í Edinborg og mun hún þar sérhæfa sig enn frekar í greininni og loftslagsréttlæti.

„Loftslagsváin er ein helsta ógn samtímans við mannréttindi, hún bitnar frekar á konum, minnihlutahópum og þeim sem hafa minnst losað af gróðurhúsalofttegundum. Sem fulltrúi ungs fólks og framtíðarkynslóða á allsherjarþinginu mun ég meðal annars leggja áherslu á það á þinginu,“ segir Jóna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.