Innlent

Læknafélag Íslands segir mikilvæg störf færð úr landi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands.
Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands. Mynd/Stöð2

Stjórn Læknafélags Íslands harmar að ekki hafi gefist tími til að semja við innlenda aðila um rannsóknarhluta leitarstarfsins áður en ákvörðun var tekin um að leghálsskimunarsýni yrðu flutt frá Íslandi til rannsóknarstofu í Danmörku til greininga.

Félagið telur að með þessari ráðstöfun séu mikilvæg sérhæfð störf lögð niður og flutt úr landi á tímum þegar atvinnuleysið er í hæstu hæðum.

„Tekið er undir álit Embættis landlæknis, Félags íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingalækna, Félags rannsóknalækna og meirihluta fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini að stefnt skuli að því allir þættir skimunarferilsins verði framkvæmdir hérlendis,“ segir í tilkynningu frá félaginu. 

„Þá telur LÍ að það veki upp spurningar um atvinnu- og heilbrigðispólitíkina sem nú er rekin í landinu að hægt virðist vera að gera samninga um heilbrigðisþjónustu erlendis án útboðs á sama tíma og stjórnvöld telji sér óheimilt að ganga til samninga um sérhæfða innlenda heilbrigðisþjónustu án útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu.“ 

Jafnframt kemur fram að flutningur á mikilvægri heilbrigðisþjónustu krefjist vandaðs undirbúnings sem margir aðilar þurfi að koma að. 

„LÍ leggur áherslu á mikilvægi samráðs heilbrigðisráðuneytisins við fag- og sérgreinafélög lækna þegar kemur að umfangsmiklum stefnubreytingum í heilbrigðisþjónustu eins og nú á sér stað um fyrirkomulag krabbameinsleitarinnar. Leiðarljós breytinga verður að vera skilvirkni og öryggi þjónustunnar.“

Stjórn félagsins hvetur konur til að mæta reglubundið í krabbameinsleitina og alla hlutaðeigandi aðila um að taka höndum saman við að styrkja leitarstarf í landinu og sameinast um að allir þættir þess séu á hendi íslenska heilbrigðiskerfisins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×