Fótbolti

Leicester City ó­vænt úr leik og AC Milan skreið á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Slavia Prag sló Leicester City óvænt út í kvöld.
Slavia Prag sló Leicester City óvænt út í kvöld. EPA-EFE/TIM KEETON

Öllum leikjum 32-liða úrslita Evrópudeildarinnar er nú lokið. Leicester City féll óvænt úr leik eftir 0-2 tap á heimavelli gegn Slavia Prag og þá fór AC Milan áfram þökk sé útivallarmörkum gegn Rauðu Stjörnunni.

Eftir markalaust jafntefli í Tékklandi gerði Slavia Prag sér lítið fyrir og vann 2-0 útisigur á Leicester City í kvöld. Þar með tryggðu Tékkarnir sér farseðil í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar á meðan enska félagið er úr leik.

Ekki er hægt að segja að Leicester hafi stillt upp slöku liði í kvöld en Kasper Schmeichel stóð í markinu og Jamie Vardy í fremstu línu. Þá voru Jonny Evans, Çağlar Söyüncü, Wilfred Ndidi, Youri Tielemans, Marc Albrighton og Cengiz Ünder í byrjunarliðinu.

Það dugði ekki í kvöld en eftir markalausan hálfleik kom Lukas Provod gestunum yfir á 49. mínútu og Abdallah Sima gulltryggði sigurinn þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. Lokatölur 2-0 Slavia Prag í vil eins og áður sagði.

AC Milan gerði 1-1 jafntefli gegn Rauðu Stjörnunni á San Siro í Mílanó og fór því áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli þar sem fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli. Franck Kessie skoraði eina mark Milan úr vítaspyrnu strax á 9. mínútu leiksins.

Young Boys frá Sviss gerðu sér lítið fyrir og unnu 2-0 útisigur á Bayer Leverkusen eftir að hafa unnið fyrri leikinn 4-3. Þá eru Dynamo Kiev, Dinamo Zagreb, PSV Eindhoven og Roma öll komin áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Björn Berg­mann í byrjunar­liðinu er Mold­e komst á­fram

Landsliðsframherjinn Björn Bergmann Sigurðarson var í byrjunarliði Molde er liðið vann 2-0 útisigur á Hoffenheim í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld og tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

Auba­mey­ang hetja Arsenal í endur­komu­sigri

Arsenal vann 3-2 sigur á Benfica er liðin mættust í Grikklandi í síðari leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli og Arsenal því komið áfram í 16-liða úrslit keppninnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.