Lind­elöf rændi Tuanzebe marki í marka­lausu jafn­tefli Man United og Real Sociedad

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tuanzebe hélt hann hefði komið Manchester United yfir en Victor Lindelöf sá til þess að staðan var markalaus.
Tuanzebe hélt hann hefði komið Manchester United yfir en Victor Lindelöf sá til þess að staðan var markalaus. EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester United er komið áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir markalaust jafntefli gegn Real Sociedad á Old Trafford í kvöld. Man Utd vann fyrri leik liðanna 4-0 og fer því þægilega áfram.

Gestirnir frá Spáni byrjuðu leikinn af miklum krafti og fengu þeir vítaspyrnu snemma leiks þegar Daniel James braut klaufalega af sér innan vítateigs. Mikel Oyarzabal – sem hafði skorað úr 18 vítaspyrnum í röð – tók vítið og skaut tölvuert fram hjá markinu eftir einkar skrautlegt aðhlaup.

Skömmu síðar átti Victor Lindelöf góða tæklingu sem kom að öllum líkindum í veg fyrir mark. Eftir þetta jafnaðist leikurinn töluvert og átti Bruno Fernandes gott skot í slá áður en Alex Remiro varði skalla Daniel James vel af stuttu færi – eftir sendingu Bruno. Staðan þó enn markalaus er flautað var til hálfleiks.

Gestirnir áttu skalla í slá í upphafi síðari hálfleiks en ekki vildi boltinn inn. Varamaðurinn Axel Tuanzebe hélt hann hefði komið Man United yfir þegar hann stangaði knöttinn af öllu afli í netið eftir hornspyrnu Alex Telles þegar rúmlega klukkustund var liðin af leiknum.

Markið var hins vegar dæmt af þar sem Victor Lindelöf stökk upp í boltann – en missti af honum – og skall af öllu afli með hnéskeljarnar í andliti leikmanns Real Sociedad. Lindelöf eflaust aldrei hoppað jafn hátt á ferlinum en því miður fyrir hann – og Tuanzebe – var markið dæmt af og Svíinn fékk gult spjald fyrir brotið.

Skömmu áður hafði James farið meiddur af velli og kom Amad Diallo inn af varamannabekknum í sínum fyrsta leik fyrir aðallið Manchester United. Áður en leik lauk kom Shola Shoretire einnig inn af bekknum í sínum öðrum leik fyrir félagið. Varð Shoretire þar með yngsti leikmaður í sögu Man United til að taka þátt í Evrópukeppni.

Fór það svo að leiknum lauk með markalausu jafntefli og Man United fór því nokkuð þægilega áfram eftir að hafa unnið fyrr leik liðanna 4-0. Dregið verður í 16-liða úrslitin í hádeginu á morgun, föstudag.


Evrópudeild UEFA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Evrópudeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.