Ísak hefur verið leikmaður Norrköping í tvö ár og er með samning við félagið sem gildir til sumarsins 2023. Orðrómur hefur verið uppi um að hann gæti verið á förum frá félaginu og hefur hvert stórliðið á fætur öðru, þar á meðal Real Madrid og Manchester United, verið sagt fylgjast með honum.
Peter Hunt er nýhættur eftir tólf ár sem formaður IFK Norrköping. Hann kveðst eiga von á því að árið 2021 verði stórkostlegt ár fyrir félagið hvað fjárhaginn snerti, og bindur vonir við að á næstu átján mánuðum verði félagið það næstbest stæða í sænsku íþróttalífi, á eftir Malmö FF. Þetta segir Hunt í viðtali við Aftonbladet.
Norrköping geti orðið næstríkasta félag Svíþjóðar
Aðspurður hvort að þessi fullyrðing sé tilkomin vegna þess að Ísak, sem verður 18 ára í næsta mánuði, verði seldur fyrir metupphæð svarar Hunt:
„Það er margt sem spilar inn í en við höfum skilað hagnaði vegna leikmannamála síðustu fimm árin og ég hef ekki trú á að það breytist árið 2021.“
Hunt segir jafnframt að ekkert komi í veg fyrir að Norrköping geti einfaldlega samþykkt hæsta tilboð sem býðst í Ísak, og hafnað öðrum: „Við erum ekki háðir einhverri kauphæðarklásúlu. Þannig störfum við ekki. Við forðumst það í næstum 100 prósentum tilfella. Það er í okkar vinnureglum að gera ekki slíka samninga. Slíkt gerist alla vega ekki nema í algjörum undantekningartilfellum,“ segir Hunt.
Hann er þá spurður hvort að slíkt undantekningartilfelli eigi við í tilviki Ísaks: „Nei, því get ég hafnað,“ segir Hunt.