Enski boltinn

Thomas Tuchel um hetju Chelsea í gær: Eins og hann sé ennþá tvítugur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Giroud fékk bæði hrós fyrir formið og hugarfarið þegar knattspyrnustjóri hans talaði um Frakkann eftir leikinn í gær.
Olivier Giroud fékk bæði hrós fyrir formið og hugarfarið þegar knattspyrnustjóri hans talaði um Frakkann eftir leikinn í gær. Getty/Cristi Preda

Thomas Tuchel, knattspyrnspyrnustjóri Chelsea, var auðvitað mjög sáttur með hetju kvöldsins en franski framherjinn Olivier Giroud tryggði Chelsea 1-0 sigur á Atletico Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Þetta var fyrri leikur liðanna og heimaleikur Atletico Madrid þótt að hann hafi verið spilaður í Búkarest í Rúmeníu vegna sóttvarnartakmarkanna á Spáni.

Olivier Giroud skoraði þetta mikilvæga mark og eina mark leiksins með hjólhestaspyrnu á 68. mínútu.

„Hann æfir eins og hann sé 20 ára eða 24 ára. Hann er gæi sem er með góða blöndu af alvarleika og gleði á æfingum,“ sagði Thomas Tuchel við Sky Sports eftir leikinn í gær.

Olivier Giroud er hins vegar orðinn 34 ára og þurfti oft að dúsa á bekknum þegar Frank Lampard var knattspyrnustjóri Chelsea. Frakkinn hefur þrátt fyrir það alltaf nýtt tækifærin sín vel. Giroud skoraði sigurmark í uppbótartíma á móti Rennes í riðlakeppninni sem og fernu á móti Sevilla.

Giroud er því alls með sex mörk í fimm leikjum í Meistaradeildinni í ár og alls 11 mörk í öllum keppnum. Hann er að skora á 91 mínútu fresti á þeim mínútum sem hann spilar.

„Þetta kemur þeim sem sjá hann á hverjum degi ekki á óvart. Hann er í frábæru formi, skrokkurinn lítur vel út og hann er líkamlega í hæsta flokki,“ sagði Tuchel.

„Hann er líka alltaf jákvæður og hefur mikil áhrif innan liðsins. Hann getur byrjað hjá okkur eða komið inn af bekknum. Hann hefur öll gæðin sem þarf til að hjálpa liðinu,“ sagði Tuchel.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.