Samtals átta mörk voru skoruð í leikjunum tveimur í gærkvöldi. Þrjú þeirra komu á Drekavöllum í Porto og fimm á Ramón Sánchez Pizjuán í Sevilla.
Haaland fór hamförum gegn Sevilla, skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 2-3 sigri Dortmund.
Sevilla byrjaði betur og Suso kom heimamönnum yfir strax á 7. mínútu. Á 19. mínútu jafnaði Mahmoud Dahoud með frábæru skoti fyrir utan vítateig.
Átta mínútu síðar skoraði Haaland eftir mikinn sprett og sendingu frá Jadon Sancho. Norðmaðurinn skoraði svo sitt annað mark og þriðja mark Dortmund á 43. mínútu eftir skyndisókn og sendingu frá Marco Reus. Staðan 1-3 í hálfleik, þýska liðinu í vil.
Luuk De Jong gaf Sevilla von fyrir seinni leikinn þegar hann minnkaði muninn í 2-3 sex mínútum fyrir leikslok.
Porto vann 2-1 sigur á Juventus þökk sé mörkum í blábyrjun beggja hálfleikja. Mehdi Teremi kom Porto yfir eftir 63 sekúndur eftir mistök hjá Rodrigo Bentancur. Aðeins nítján sekúndur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Moussa Marega kom Porto í 2-0.
Federico Chiesa minnkaði muninn í 2-1 átta mínútum fyrir leikslok og Juventus dugir því að vinna seinni leikinn í Tórínó, 1-0, til að komast áfram.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.