Fótbolti

Setti svefntöflur í bjór Maradona á kvöldin og lét hann fá áfengi í morgunmat

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Armando Maradona með einum af aðstoðarmönnum sínum í mars á síðasta ári.
Diego Armando Maradona með einum af aðstoðarmönnum sínum í mars á síðasta ári. Getty/Marcos Brindicci

Þær eru ekki mjög fallegar sögurnar af því hvernig hugsað var um Diego Armando Maradona síðustu mánuðina í hans lífi.

Knattspyrnugoðsögnin Maradona lést 25. nóvember síðastliðinn aðeins tæpum mánuði eftir að hann hélt upp á sextugsafmælið sitt og tveimur vikum eftir að hann gekkst undir vel heppnaða heilaaðgerð.

Fjölskylda Maradona heimtaði strax rannsókn á láti Maradona og setti fram efasemdir um hvernig var hugsað um karlinn á lokasprettinum. Nú eru menn í Argentínu farnir að velta steinum og ýmislegt að koma fram í dagsljósið.

Það var vitað að Diego Maradona barðist við alkóhólisma og eiturlyfjafíkn síðustu árin í lífi hans en ekki fundust þó eiturlyf í honum við krufningu.

Nýjar fréttir af því frá Argentínu mála upp sláandi mynd af aðstæðum Maradona síðustu mánuðina í hans lífi. Griselda Morel, námssálfræðingur Diego sem er átta ára sonur Maradona, hefur sagt frá því sem hún var vitni af.

Hún sagði að umsjónarmaður Maradona hafi sem dæmi mulið niður svefntöflur og sett út í bjór Maradona til að róa hann á nóttinni en aðallega til að losna við truflanir.

Maradona á líka að hafa fengið áfengi þegar hann vaknaði á morgnanna. „Ef hann vaknaði klukkan níu um morguninn og bað um bjór þá fékk hann bjór,“ sagði umrædd Griselda Morel í yfirheyrslu sinni sem var lekið í argentínska fjölmiðla.

Hún sagði líka frá því að andleg heilsa Maradona hefði hrakað mikið og dæmi um það var þegar hann sást tala í síma án þess að vera með síma í hendi.

Morel kom með Dieguito þegar strákurinn heimsótti föður sinn og eyddi tíma með honum á heimili Maradona í Buenos Aires.

„Í síðasta skiptið sem ég sá Diego þá kvartaði hann yfir að baðherbergið hafi verið uppi á efri hæðinni og þeir enduðu á að baða hann með slöngu,“ sagði Morel.

„Hann sagðist hafa rekið eina af hjúkrunarfræðingum sínum af því að hún átti að hafa stolið frá honum,“ sagði Morel.


Tengdar fréttir

Mega ekki brenna lík Maradona

Argentínskur dómstóll gaf í gær út úrskurð sinn í sérstöku máli þar sem menn voru að deila um hvað megi gera við líkama Diego heitins Maradona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×