Fótbolti

Dóttir Maradona ældi eftir að hafa heyrt upptöku frá dauðastund föður síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Maradona með dætrum sínum Dölmu og Gianninu ásamt fyrrum eiginkonu sinni Claudiu Villafane á góðri stund í Cannes í Frakklandi árið 2008.
Diego Maradona með dætrum sínum Dölmu og Gianninu ásamt fyrrum eiginkonu sinni Claudiu Villafane á góðri stund í Cannes í Frakklandi árið 2008. Getty/Pascal Le Segretain

Dalma, dóttir Diego Maradona heitins, vill að réttlætinu verði fullnægt en hún pressar á það að tveir menn verði sóttir til saka vegna fráfalls föður síns.

Dalma hefur sagt frá því hvernig henni leið þegar hún hlustaði á upptöku af samtali skurðlæknisins Leopoldo Luque og sjúkraþjálfarans Agustina Cosachov á dauðastund föður síns.

Einksamtal milli þeirra Luque og Cosachov frá 25. nóvember síðastliðnum var tekið upp og síðan lekið í fjölmiðla. Cosachov var í húsi Maradona þegar hann lést og var þarna að láta Luque vita af því hvað væri í gangi.

„Við komum inn í herbergið og hann var kaldur, kaldur,“ segir í upptökunni. „Við fundum engan púls en við byrjuðum endurlífgun og hann fékk smá lit aftur og við skulum segja, fékk smá hita í skrokkinn. Við reyndum endurlífgun í tíu mínútur og svo kom sjúkrabíllinn. Núna eru þeir að huga að honum,“ segir í upptökunni.

Maradona dó þarna sextíu ára gamall en þá voru liðnar tvær vikur frá því að hann gekkst undir heilaaðgerð á spítala í Buenos Aires. Luque framkvæmdi aðgerðina á Maradona og hafði fyrir andlátið lýst honum sem erfiðum sjúklingi.

Það fékk mjög á Dölmu Maradona að hlusta á upptökuna. Hún segir að lögfræðingur og umboðsmaður föður síns, Matias Morla, beri ábyrgð á dauða hans með Luque lækni.

„Ég hlustaði á upptökuna á samtali Luque og sjúkraþjálfarans og ég ældi. Það eina sem ég bið um er að guð sjá til þess að réttlætinu sé fullnægt,“ sagði Dalma Maradona í samtali við argentínska fjölmiðla sem ESPN greinir frá.

Giannina, systir Dölmu, var einnig mjög ósátt eftir að hafa hlustað á upptökuna.

„Sannleikurinn sigrar alltaf. Þið tveir munuð fara í fangelsi,“ sagði Giannina.

Hvorki áfengi né eiturlyf voru í blóði Diego Maradona þegar hann lést.

Leitað var bæði á heimili og skrifstofu Leopoldo Luque læknis til að komast að því hvaða lyf hann gaf Maradona og hvaða aðferðum hann og aðstoðarmenn hans beittu í meðferðina á Maradona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.