Milljónir eru án rafmagns og hita og minnst tuttugu hafa dáið. Þar á meðal ein fjölskylda sem bjó í nágrenni Houston í Texas. Þau köfnuðu vegna koltvísýringseitrunar frá bíl í bílskúr þeirra. Þau voru að hlýja sér í bílnum.
Önnur fjölskylda kafnaði frá eldi sem þau höfðu kveikt í eldstæði á heimili þeirra.
Fjölmargir hafa þurft að fara á sjúkrahús vegna koltvísýringseitrunar þar sem fólk hefur ítrekað kveikt elda á heimilum sínum. Bara í Harrissýslu, þar sem Houston er, hafa rúmlega 300 þurft á sjúkrahús.
Þetta kuldakast er til komið vegna heimskautalægðarinnar svokölluðu, sem heldur sig iðulega á heimskautasvæðinu, eins og nafnið gefur til kynna. Lægð þessi hefur nú verið að færa sig sunnar á bóginn og haldið sig þar lengur en gengur og gerist.
Vísindamenn segja það afleiðingu veðurfarsbreytinga og að mögulega muni kuldaköstum sem þessum fara fjölgandi.
Samkvæmt AP fréttaveitunni spá veðurfræðingar því að lægðin færist norðaustur annað kvöld. Undirbúningur vegna þessa stendur nú yfir allt frá Baltimore til Boston.
Íhaldsmenn í Texas og víðar um Bandaríkin hafa bent fingrum sínum á umhverfisvæna orkugjafa eins og vind- og sólarorku og rafmagnsleysið sé þeim orkugjöfum að kenna. Það er í grunninn ekki rétt.
Eins og bent er á í grein AP og í grein Washington Post um þessar ásakanir út í umhverfisvæna orkugjafa, þá er það rétt að ráðamenn í Texas hafi auki vægi þeirra í raforkukerfi ríkisins.
Allt frá tíu til 25 prósent rafmagns Texas er nú tilkomið vegna vindorku. Orkustofnun Texas, ERCOT, gaf það út í gær að um rafmagnskerfi ríkisins væri um 46 þúsund megtavöttum undir hámarksframleiðslu og var það vegna kuldakastsins. Þar af vantaði um 30 þúsund MV upp á hjá orkuverum sem reiða á kol, gas og kjarnorku og um sextán þúsund MV hjá vindorkuverum.
Í grein Houston Chronicle segir segir að rafmagnskerfi Texas sé vel undirbúið fyrir hitabylgjur, þegar notkun hækkar verulega. Það sama megi ekki segja um kuldaköst. Framleiðsla ríkisins á olíu hafi dregist saman um tvær milljónir tunna á dag og framleiðsla á náttúrugasi um sjö rúmfet á dag.
Ekki hafi því reynst mögulegt að keyra orkuver á fullum afköstum.