Fram kom í frétt Fréttablaðsins í morgun að veiðiþjófnaður á landi Seðlabanka Íslands á Suðurlandi hefði verið kærður til lögreglu fyrr í vetur. Blaðið hafði eftir heimildum sínum að Ragnar Þór hefði verið í hópi þriggja manna sem staðinn hefði verið að ólögregri netalögn. Ragnar Þór neitaði þó allri aðkomu að málinu í samtali við blaðið. Lögregla á Suðurlandi staðfesti við Fréttablaðið að kæra hefði borist vegna ólöglegrar netalagnar í Holtsá, sem fellur í Skaftá.
Ragnar Þór hefur hvorki stöðu sakbornings né vitnis í tengslum við málið, að því er fram kemur í svari R. Brynju Sverrisdóttur, aðalvarðstjóra hjá lögreglu á Suðurlandi, við fyrirspurn Ragnars Þórs sjálfs í morgun. Daniel Isebarn Ágústsson lögmaður Ragnars sendi fjölmiðlum afrit af svari Brynju, sem sjá má í heild hér fyrir neðan.
Vegna fyrirspurnar þinnar get ég svarað því til, að samkvæmt gögnum málsins er varðar meintan veiðiþjófnað og/eða ólöglega netaveiði í Holtsá, þá get ég staðfest, Ragnar Þór, að þú ert hvorki skráður sem sakborningur né vitni í tengslum við þetta mál.
Krefst leiðréttingar og afsökunarbeiðni
Í öðru bréfi sem Daníel sendi Torgi og öðrum fjölmiðlum fullyrðir hann að þessar upplýsingar frá lögreglu hafilegið fyrir þegar Fréttablaðsins var unnin. Ragnar Þór sé ranglega bendlaður við málið. Daníel telur að með fréttaflutningi sínum hafi Fréttablaðið brotið gegn siðareglum blaðamanna og ákvæði fjölmiðlalaga.
Þess sé því krafist að allir miðlar Torgs fjarlægi umfjallanir sínar um að Ragnar Þór hafi staðið að ólöglegu netalögninni, leiðrétti og dragi þær til baka. Þá sé krafist að Ragnar Þór verði beðinn afsökunar á umfjölluninni.
„Verði ekki orðið við framangreindum kröfum mun Ragnar Þór neyðast til þess að láta reyna á framangreind ákvæði um skyldur blaðamanna og fjölmiðla.“