Enski boltinn

Sportið í dag: Liverpool á heima í íslensku deildunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar marki sínu á móti Leicester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Salah kom Liverpool í 1-0 en Leicester vann leikinn 3-1.
Mohamed Salah fagnar marki sínu á móti Leicester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Salah kom Liverpool í 1-0 en Leicester vann leikinn 3-1. Getty/Carl Recine

Meistaradeildin fer aftur af stað í kvöld og strákarnir í hlaðvarpsþættinum Sportið í dag ræddu leiki kvöldsins í þætti dagsins. Það eru margir að velta fyrir sér hvernig Liverpool lið menn fá að sjá í kvöld.

Liverpool og Barcelona hafa bæði verið í basli á þessu tímabili og þau eru bæði í eldlínunni í kvöld. Liverpool heimsækir þá þýska liðið RB Leipzig en Börsungar frá Paris Saint Germain í heimsókn.

Það var tilvalið fyrir þá Kjartan Atli Kjartansson, Ríkharð Óskar Guðnason og Henry Birgi Gunnarsson að ræða leikina í kvöld sem verða báðir sýndir beint á sportstöðvunum.

„Ég held að Liverpool fari áfram úr þessu einvígi en ég held að Liverpool vinni ekki leikinn í kvöld. Það er rosaleg jafnteflislykt af þessum leik. 1-1 er rosalega líkleg úrslit,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason.

„Ég hugsa um síðustu leiki Leipzig gegn enskum liðum. Þeir pökkuðu United saman í leiknum sem skipti máli en steinlágu á Old Trafford. Svo mættu þeir Tottenham rétt áður en öllu var lokað. Þeir tóku Tottenham og þetta er ofboðslega skemmtilegt lið,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson.

„Þeir eru búnir að vera að spila með falskar níur og eru með marga leikmenn sem geta dottið niður á völlinn. Þetta er fyrst og fremst óútreiknanlegt taktískt undur sem Julian Nagelsmann stillir oft upp,“ sagði Kjartan Atli.

„Ég held að þetta verði mjög áhugavert og það sé von á hverju sem er. Eins og takturinn er upp og niður hjá Liverpool þá á Liverpool liggur við heima í íslensku deildunum því maður veit ekkert hvað maður fær frá þeim,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson.

Það má finna allt spjallið þeirra og allan þáttinn hér fyrir ofan.

Liverpool mætir Leipzig í kvöld í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 20.00 en bein útsending á Stöð 2 Sport 2 hefst klukkan 19.50.

Upphitun fyrir leiki kvöldsins hefst klukkan 19.15 á Stöð 2 Sport en leikur Barcelona og PSG er sýndur beint á Stöð 2 Sport 4 frá klukkan 19.50. Meistaradeildarmörkin eru síðan á dagskrá Stöð 2 Sport 2 frá klukkan 22.00.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×