Erlent

Vara her­foringja­stjórnina við því að berja niður frið­söm mót­mæli með of­beldi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Frá mótmælum í Mjanmar í gær.
Frá mótmælum í Mjanmar í gær. Getty/Hkun Lat

Sameinuðu þjóðirnar vara herforingjastjórnina í Mjanmar við afleiðingum þess að berja niður friðsöm mótmæli í landinu með ofbeldi.

Sérstakur erindreki Sameinuðu þóðanna gagnvart Mjanmar, Christine Schraner Burgener mun hafa komið þeim skilaboðum til herforingjanna í símtali að ofbeldi gegn almennum borgurum muni hafa alvarlegar afleiðingar.

Herforingjarnir hafa hert tökin í landinu undanfarna daga eftir fjölmenn mótmæli sem komu í kjölfar valdaráns hersins þar sem helstu leiðtogar landsins voru fangelsaðir.

Táragasi og gúmmíkúlum hefur verið beitt og ein kona var skotin í höfuðið á dögunum. Þá hefur upplýsingaflæði verið takmarkað og slökkt var á internetinu um tíma þó sambandi hafi nú aftur verið komið á.

Í gær sagði talsmaður hersins einnig frá því að þeir sem mótmæli á götum úti eigi yfir höfði sér tuttugu ára fangelsi og háar fjársektir.

Þrátt fyrir þetta greinir Reuters fréttastofan frá því að í morgun hafi hópar komið saman, en mun fámennari en áður þó.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.