Enski boltinn

Rio segir að Liver­pool verði í vand­ræðum með að ná topp fjórum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jordan Henderson og félagar eru í vandræðum. Ná ensku meistararnir Meistaradeildarsæti?
Jordan Henderson og félagar eru í vandræðum. Ná ensku meistararnir Meistaradeildarsæti? Visionhaus/Getty Images

Rio Ferdinand, fyrrum varnarmaður Manchester United og nú spekingur BT Sports, telur að Liverpool verði í vandræðum með að ná einum af fjórum efstu sætunum í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool tapaði þriðja leiknum í röð í gær er liðið lá fyrir Leicester á útivelli 3-1. Eftir að Mo Salah kom þeim í 1-0 snérist leikurinn um miðjan síðari hálfleik og heimamenn svöruðu með þremur mörkum.

„Sjálfstraustið hefur verið tekið úr liðinu. Þeir komast marki yfir og á síðustu leiktíð þá hefði leikurinn verið búinn en þú ferð frá sjóvarpinu og þeir hafa fengið á sig þrjú mörk,“ sagði Ferdinand á BT Sport.

„Maður setur spurningarmerki við þetta núna. Þú treystir þeim ekki jafn mikið. Það er ekki sama ára yfir þeim. Á síðustu leiktíð var fólk að segja að þetta væri eitt besta lið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.“

„Þeir eiga Leipzig í vikunni í Meistaradeildinni og þeir vilja fara áfram í þeirri keppni og sýna hvað þeir geta. Búningsklefinn þarf að standa saman.“

Liverpool er í fjórða sætinu sem stendur og er þrettán stigum á eftir toppliði Man. City, sem á einnig leik til góða. Ansi mikil barátta er um fjögur efstu sætin og Ferdinand segir að baráttan verði hörð áfram.

„Ég held að þeir verði í vandræðum með að ná einum af fjórum efstu sætunum,“ sagði Ferdinand.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.