Aftur tapaði United stigum gegn botn­bar­áttu­liði

Anton Ingi Leifsson skrifar
Harry Maguire svekkir sig eftir að WBA komst yfir snemma leiks.
Harry Maguire svekkir sig eftir að WBA komst yfir snemma leiks. Nick Potts/Getty

Manchester United gerði 1-1 jafntefli við WBA á útivelli í dag. United hefur því tapað fimm stigum gegn gegn botnbaráttuliðum á síðustu vikum; þremur gegn Sheffield United og tveimur gegn WBA.

Þetta byrjaði ekki vel því eftir einungis tæplega tvær mínútur. Fyrirgjöf Conor Gallagher rataði á Mbaye Diagne, sem var sterkari en Victor Lindelöf og stangaði boltann fram hjá David de Gea í markinu.

United sótti án afláts eftir að WBA komst yfir. Jöfnunarmark United kom ekki úr óvæntri átt en Bruno Fernandes jafnaði metin á 44. mínútu með glæsilegu vinstri fótar skoti eftir fyrirgjöf Luke Shaw.

Sama leikmynd var í síðari hálfleik; United var með boltann og WBA varðist fimlega. United virtist vera fá vítaspyrnu um miðjan síðari hálfleikinn. Craig Pawson dæmdi vítaspyrnu eftir brot á Harry Maguire en eftir skoðun í VARsjánni ákvað hann að taka vítaspyrnuna til baka.

Þrátt fyrir margar álitlegar sóknir United þá náðu þeir ekki að finna sigurmarkið en WBA fékk svo tvö frábær færi ellefu mínútum fyrir leikslok. Diagne brást þá bogalistin úr tveimur frábærum færum. Harry Maguire komst næst því að skora er hann skallaði í stöngina á 94. mínútu en lokatölur 1-1.

Brösugt gengi United að undanförnu heldur áfram en liðið hefur einungis unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni. Það var 9-0 sigurinn á Southampton.

United er í öðru sætinu eftir jafnteflið en eru sjö stigum á eftir grönnum sínum í City sem eiga einnig leik til góða. Þeir eru með jafn mörg stig og Leicester sem er í þriðja sætinu en betra markahlutfall. Liverpool er svo í fjórða sætinu, sex stigum á eftir United og Leicester. WBA er í næst neðsta sætinu með þrettán stig, tólf stigum frá öruggu sæti.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.