Jóhann Berg skoraði annan deildar­leikinn í röð og öruggt hjá Burn­l­ey

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhann fagnar með Dwight Mcneil, Ashley Barnes og Joe Rodriguez.
Jóhann fagnar með Dwight Mcneil, Ashley Barnes og Joe Rodriguez. Charlotte Wilson/Getty

Burnley gerði sér lítið fyrir og skellti Crystal Palace á útivelli, 3-0, er liðin mættust á Selhurst Park í dag. Jóhann Berg Guðmundsson skoraði annan deildarleikinn í röð.

Jóhann Berg var á skotskónum í 1-1 jafnteflinu gegn Brighton um síðustu helgi og hann skoraði fyrsta mark leiksins eftir einungis fimm mínútna leik með góðu skoti.

Fimm mínútum síðar voru gestirnir frá Burnley búnir að tvöfalda forystuna með góðu skallamarki frá Jay Rodriguez sem stóð óvaldaður í teignum eftir hornspyrnu Dwight McNeil.

Burnley var 2-0 yfir í hálfleik og þriðja markið kom strax í upphafi síðari hálfleiks er Matthew Lowton skoraði með glæsilegu skoti eftir flottan sprett og samleik við Jay Rodriguez.

Lokatölur urðu 3-0 sigur Burnley sem færist enn fjær fallbaráttunni. Þeir eru í fimmtánda sætinu með 26 stig en Palace er tveimur sætum ofar með 29 stig.

Jóhann Berg var tekinn af velli eftir 72 mínútur en hann skilaði góðu dagsverki.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.