Fabinho sneri aftur í lið Liverpool þegar Englandsmeistararnir töpuðu fyrir Manchester City, 4-1, um síðustu helgi.
Hann verður hins vegar ekki með í hádegisleiknum á morgun þegar Liverpool sækir Leicester heim vegna meiðsla. Þau eru ekki alvarleg að sögn Jürgens Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool. Enn er ekki vitað hvort Fabinho verði klár fyrir fyrri leik Liverpool og RB Leipzig í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í næstu viku.
Fabinho hefur aðallega leikið í miðri vörn Liverpool í vetur vegna mikilla meiðsla hjá varnarmönnum liðsins.
Liverpool fékk miðverðina Ben Davies og Ozan Kabak til sín um síðustu mánaðarmót og þeir gætu fengið tækifæri gegn Leicester á morgun. Nathaniel Philipps gerir einnig tilkall til sætis í byrjunarliðinu.
Á blaðamannafundinum í dag sagði Klopp að Naby Keïta og Diogo Jota væru byrjaðir að æfa eftir meiðsli og það styttist í að þeir gætu byrjað að spila á ný. Það væri þó lengra í Jota en Keïta.
Liverpool er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Með sigri á Leicester fara meistararnir upp í 3. sæti deildarinnar.