Innlent

Mæta í næstu sprautu eftir þrjá mánuði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bólusetningin gekk vel í dag, að sögn framkvæmdastjóra hjúkrunar. Hér má sjá röðina sem myndaðist fyrir utan húsnæði Heilsugæslunnar á Suðurlandsbraut í dag.
Bólusetningin gekk vel í dag, að sögn framkvæmdastjóra hjúkrunar. Hér má sjá röðina sem myndaðist fyrir utan húsnæði Heilsugæslunnar á Suðurlandsbraut í dag. Vísir/vilhelm

Tólf hundruð manns voru bólusettir með bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni í húsakynnum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut í dag. Bólusetning gekk afar vel, að sögn framkvæmdastjóra hjúkrunar.

„Bólusetningunni er rétt að ljúka núna. Þetta hefur gengið ótrúlega vel og þetta nýja efni farið vel í landann,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi.

Hún segir að bóluefni AstraZeneca sé svipað í meðhöndlun og bóluefni Pfizer og Moderna sem þegar er byrjað að bólusetja með hér á landi. Helsti munurinn liggi í tímanum sem líði milli sprauta.

„Það sem er öðruvísi er að næsta sprauta hjá AstraZeneca er eftir þrjá mánuði, besta vörnin kemur þá. Þannig að þessi hópur í dag verður orðinn fullbólusettur rétt fyrir sumarið,“ segir Ragnheiður. Samkvæmt upplýsingum á vef Lyfjastofnunar er Moderna-bóluefnið gefið með 28 daga millibili og Pfizer-efnið minnst 21 dags millibili.

Fyllt á sprauturnar.Vísir/vilhelm

Þeir sem bólusettir voru í dag eru starfsmenn hjúkrunarheimila. Ragnheiður segir að fleiri skammtar frá AstraZeneca séu væntanlegir næstu vikurnar, sem áfram verði notaðir á starfsmenn hjúkrunarheimila og starfsmenn í heimahjúkrun.

Fyrsta sending af bóluefni AstraZeneca kom til landsins 5. febrúar. Ísland hefur samið um kaup á 230.000 skömmtum frá AstraZeneca. Von er á 14.000 skömmtum alls nú í febrúar og alls 74 þúsund skömmtum fyrir mánaðamót mars/apríl. Bóluefnið er gefið fólki yngra en 65 ára.

Þrír mánuðir verða látnir líða á milli fyrri og seinni skammts en þannig nær bóluefnið hámarksvirkni.

Bóluefni AstraZeneca er gefið fólki yngra en 65 ára.Vísir/vilhelm
Starfsmenn hjúkrunarheimila stilla sér upp í bólusetningarröðina.Vísir/vilhelm
Þrír mánuðir líða milli sprauta af bóluefni AstraZeneca.Vísir/vilhelm

Tengdar fréttir

Klár í framlínuna eftir seinni sprautuna

Lögreglumenn í framlínu, sjúkraflutningamenn og slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu byrjuðu að streyma í Laugardalshöll klukkan 13 í dag þar sem þeir fengu seinni Moderna sprautuna sína. Framkvæmdastjóri hjúkrunar segir að planið hafi verið að bólusetja 400 manns fyrsta klukkutímann og stefndi í að það gengi eftir.

„Ég myndi nú ekki kalla þetta vonbrigði“

Heilbrigðisráðherra segist hafa haft hóflegar væntingar um að Íslendingum yrði boðið að taka þátt í bóluefnarannsókn á vegum lyfjafyrirtækisins Pfizer. Ráðherrann er vongóður um að búið verði að bólusetja meirihluta þjóðarinnar í sumar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.