Enski boltinn

Rikki segir alla benda á De Gea en enginn á Maguire: „Hefur ekki staðið undir verð­miðanum“

Anton Ingi Leifsson skrifar
De Gee og Maguire svekktir fyrr á leiktíðinni.
De Gee og Maguire svekktir fyrr á leiktíðinni. Ash Donelon/Getty

Ríkharð Óskar Guðnason segir að David de Gea sé á vörum allra en enginn ræði um frammistöðu Harry Maguire í leiknum gegn Everton á laugardag. United glutraði niður forystu í tvígang í leiknum.

Strákarnir í Sportinu í dag ræddu um frammistöðu Manchester United gegn Everton á laugardagskvöldið sem endaði með dramatísku 3-3 jafntefli. Dominic Calvert-Lewin jafnaði á síðustu sekúndu leiksins.

„Mér fannst leikurinn á laugardaginn mjög skrýtinn. David de Gea gerði mistök í leiknum og hefði getað komið út á móti í lokamarkinu en ræðir samt enginn fyrsta og þriðja markið; Harry Maguire?“ sagði Rikki og hélt áfram:

„Hann er dýrasti varnarmaður heims. Staðsetningin á honum í þriðja markinu er í besta falli vond. Það talar enginn um það. Það er bara bent á David de Gea. Harry Maguire hefur ekki staðið undir sínum verðmiða. Mjög langt frá því.“

Kjartan Atli var ekki sammála Rikka og sagði Kjartan að hann hafi verið ánægður með Maguire hingað til.

„Mér finnst Harry Maguire búinn að vera mjög góður á þessu tímabili. Mér finnst hann góður hafsent. Hann veit aldrei hver er fyrir hliðina á sér. Hann er með Lindelöf, Bailly og Tuanzebe á tímabili. Þriggja manna, fjögurra manna,“ áður en Rikki tók aftur við boltanum.

„Þú ert með leikinn í teskeið. Everton var bara að elta United. Af hverju ertu að gera skiptingu í uppbótartíma til að hrófla í vörninni? Gæi sem er með ekkert sjálfstraust. Hann brýtur af sér, annars hefði leiktíminn verið búinn,“ sagði Rikki.

Umræðuna um United má heyra eftir rúmlega tólf mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×