Fótbolti

Ungur fótboltamaður berst fyrir lífi sínu eftir að hafa fengið raflost

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Gresele var farinn að banka á dyrnar hjá  Hellas Verona.
Andrea Gresele var farinn að banka á dyrnar hjá  Hellas Verona. Getty/Alessandro Sabattini/

Ítalski knattspyrnumaðurinn Andrea Gresele er á gjörgæslu eftir að hafa orðið fyrir raflosti um helgina.

Hinn átján ára gamli Andrea Gresele spilar með unglingaliði Hellas Verona en slysið varð þó ekki í leik eða á æfingu.

Atvikið gerðist á laugardaginn þegar Andrea var úti að leika sér með vinum sínum.

Hann klifraði þá upp á lest á Porta Vescovo lestarstöðinni en rakst í rafmagnslínu fyrir ofan lestina og fékk raflost.

Raflostið var einnig til þess að hann féll fjóra metra niður á jörðina.

Gresele braut hryggjarlið og það blæddi inn á heila hans við fallið. Hann fór í aðgerð á mánudaginn og er áfram í gjörgæslu.

Bæði Hellas Verona og erkifjendurnir í Chievo sendu honum baráttukveðjur á Twitter.

Andrea Gresele spilar sem hægri bakvörður og hefur staðið sig svo vel að hann var kallaður inn í aðalliðið fyrir bikarleik á móti Cagliari í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×