Mc­Tominay tryggði Man Utd sæti í átta liða úr­slitum | Sjáðu markið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
McTominay fagnar marki sínu í kvöld.
McTominay fagnar marki sínu í kvöld. Matthew Peters/Getty Images

Scott McTominay tryggði Manchester United sæti í 8-liða úrslitum FA-bikarsins á Englandi er liðið vann 1-0 sigur á West Ham United í framlengdum leik á Old Trafford í kvöld. 

Leikurinn fer ekki í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi og til að mynda kom fyrsta skot gestanna á markið ekki fyrr en í síðari hálfleik framlengingar. Það kom ekki að sök lengi vel en staðan að loknum venjulegum leiktíma var markalaus. 

Lítið var um opin marktækifæri og í raun aðeins eitt alvöru færi í öllum leiknum er flautað var til loka venjulegs leiktíma. Það kom í fyrri hálfleik en þá átti Victor Lindelöf - miðvörður Manchester United - skot í varnarmann West Ham sem Łukasz Fabiański varði á einhvern ótrúlegan hátt í horn.

Þegar sjö mínútur voru liðnar af framlengingunni gaf Fred allt sem hann átti til að koma í utan á hlaup og gefa fyrir markið eftir að Bruno Fernandes var með boltann vinstra megin við teig gestanna. 

Boltinn barst á endanum til Marcus Rashford hægra megin í teignum. Rashford lagði knöttinn snyrtilega fyrir fætur Scott McTominay sem kom aðsvífandi og skoraði sitt sjöunda mark á tímabilinu með snyrtilegu skoti í fyrsta.

Reyndist þetta eina mark leiksins og Manchester United komið áfram í 8-liða úrslit enska bikarsins líkt og Bournemouth sem vann Burnley fyrr í kvöld. Var þetta 16. leikur West Ham í röð á Old Trafford þar sem liðinu tekst ekki að ná í sigur.

Þó það hafi verið lítið að gera hjá Dean Henderson í marki Manchester United þá var frammistaða hans nægilega góð til að valda Ole Gunnar Solskjær höfuðverk um hvaða markmaður ætti að byrja næsta leik liðsins.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira