Erlent

Hrókeringar meðal Græningja í sænsku ríkis­stjórninni

Atli Ísleifsson skrifar
Per Bolund, annar leiðtoga Græningja í Svíþjóð, verður nýr aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar.
Per Bolund, annar leiðtoga Græningja í Svíþjóð, verður nýr aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar. EPA

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, tilkynnti um hrókeringar í ríkisstjórn sinni í morgun. Snúa þær að ráðherrum úr röðum Græningja.

Breytingarnar koma eftir að Isabella Lövin, aðstoðarforsætisráðherra og ráðherra umhverfis- og loftslagsmála, lét af störfum sem annar leiðtoga Græningja. Märta Stenevi tók við leiðtogahlutverki Lövin í flokknum, en Lövin hverfur með breytingunum úr ríkisstjórn.

Per Bolund, hinn leiðtogi flokks Græningja, sem hefur gegnt embætti ráðherra húsnæðismála og fjármálamarkaðsmála, verður nýr aðstoðarforsætisráðherra og ráðherra loftslags- og umhverfismála.

Stenevi kemur ný inn í ríkisstjórn sem ráðherra jafnréttismála og húsnæðismála. Åsa Lindhagen, sem hefur verið ráðherra jafnréttismála, verður nýr ráðherra fjármálamarkaðsmála og aðstoðarfjármálaráðherra. Þá verður Per Olsson Fridh ráðherra þróunarsamvinnumála.

Alls eru 21 ráðherra í ríkisstjórn Svíþjóðar, auk forsætisráðherrans Löfven.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×