Innlent

Vara­for­maðurinn sagður nú sækjast eftir sæti á lista

Atli Ísleifsson skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur árið 2015 og var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar árið 2017.
Heiða Björg Hilmisdóttir tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur árið 2015 og var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar árið 2017. Vísir/Vilhelm

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfrulltrúi og varaformaður Samfylkingar, er sögð hafa látið þau boð berast til uppstillingarnefndar Samfylkingarinnar í Reykjavík að hún sé reiðubúin taka sæti á lista flokksins fyrir komandi þingkosningar.

Þetta segir í frétt Fréttablaðsins í morgun þar sem haft er eftir Heiðu Björgu að hún hafi fengið mikið af áskorunum um framboð og að hún útiloki nú ekkert í þeim efnum.

Áður hafði Heiða Björg beðist undan að taka þátt í skoðanakönnun meðal flokksmanna um frambjóðendur í komandi kosningum. Hrannar B. Arnarson, eiginmaður Heiðu Bjargar, átti sæti í uppstillingarnefndinni en vék úr henni fljótlega eftir að hún hóf störf.

Mikið hefur verið fjallað um skoðanakönnunina meðal flokksmanna þar sem fjórar konur – Helga Vala Helgadóttir þingkona, Kristrún Frostadóttir hagfræðingur, Ragna Sigurðardóttir, formaður UJ og Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingkona – og einn karlmaður, Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrverandi blaðamaður hjá Stundinni, skipuðu fimm efstu sætin. Rósa Björk hefur nú tilkynnt að hún sækist eftir því að leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Athygli vakti að þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson hlaut ekki brautargengi í téðri skoðanakönnunun, og tilkynnti að endingu að hann myndi afþakka sæti á lista. Ágúst Ólafur bauðst til að taka annað sæti á lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, en sagðist afþakka sæti þegar uppstillingarnefnd bauð honum þriðja sæti.

Heiða Björg tók sæti í borgarstjórn árið 2015 og var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar árið 2017. Hún hafði betur gegn þingkonunni Helgu Völu Helgadóttur í varaformannskjöri á landsfundi flokksins í nóvember síðastliðinn.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.