Fótbolti

Ron­aldo sá til þess að Juventus er í góðri stöðu fyrir seinni leikinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronaldo var að venju allt í öllu hjá Juventus í kvöld.
Ronaldo var að venju allt í öllu hjá Juventus í kvöld. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Juventus vann 2-1 útisigur á Inter Milan er liðin mættust í fyrri undanúrslitaleik Coppa Italia, ítalska bikarsins, í kvöld. Cristiano Ronaldo skoraði bæði mörk Juventus. Sjá má mörkin þrjú hér að neðan.

Undanúrslit Coppa Italia eru þannig að leiknir eru tveir leikir og fór fyrri leikur liðanna fram á San Siro – heimavelli Inter – í kvöld. Bæði lið stilltu upp ógnarsterkum liðum og ljóst að þeir Antonio Conte og Andrea Pirlo ætla sér báðir sigur í bikarkeppninni.

Inter var þó án Romelu Lukaku í leiknum á meðan Gianlugi Buffon lék milli stanganna hjá Juventus.

Það voru heimamenn sem fengu sannkallaða draumabyrjun á níundu mínútu er Argentínumaðurinn Lautaro Martinez kom Inter yfir eftir sendingu Nicolo Barella. Mögulega hefði Buffon átt að gera betur í marki heimamanna.

Rúmum fimmtán mínútum síðar braut Ashley Young hins vegar af sér innan vítateigs og vítaspyrna dæmd.

Ronaldo – hver annar – fór á punktinn og skoraði af öryggi. Aðeins tíu mínútum síðar kom Ronaldo Juventus yfir þegar hann las aðstæður fullkomlega. Stakk Portúgalinn sér inn í slaka sendingu Inter til baka og hirti boltann áður en hann skoraði úr þröngu færi og kom Juventus 2-1 yfir.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik, raunar urðu þau ekki fleiri í leiknum og því fer Juventus með eins marks forystu inn í síðari leik liðanna sem verður leikinn þann 9. febrúar á Allianz-vellinum í Torino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×