Enski boltinn

Salah: Ég vil ekki fá sekt en VAR drepur leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah er hér að fá fréttirnar af því að Varsjáin sé búin að dæma markið af sem hann skoraði á móti Tottenham.
Mohamed Salah er hér að fá fréttirnar af því að Varsjáin sé búin að dæma markið af sem hann skoraði á móti Tottenham. Getty/Shaun Botterill

Mohamed Salah gerði útslagið fyrir Liverpool liðið í gær með tveimur laglegum mörkum á móti West Ham. Eftir leikinn lét hann þó myndbandsdómgæsluna heyra það.

Egyptinn Mohamed Salah hefur misst nokkur mörk á tímabilinu vegna Varsjárinnar og hann gat ekki setið á sér þegar hann var spurður út í VAR eftir 3-1 sigurinn á West Ham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Salah var ekki búinn að skora í sex deildarleikjum í röð fyrir West Ham leikinn en Varsjáin dæmdi meðal annars markið af sem hann skoraði á móti Tottenham í leiknum á undan.

„Ég hef ekki breytt um skoðun. Ég er ekki hrifinn af VAR. Alveg frá byrjun tímabilsins, þá finnst mér að VAR sé að drepa leikinn, sjálfa gleðina við fótboltann,“ sagði hinn 28 ára gamli Mohamed Salah í viðtali við Sky Sports eftir leikinn.

„Hérna þarftu að vera nákvæmlega á sömu línu með rangstöðuna en ég held að í Meistaradeildinni og í öðrum löndum þá fær sóknarmaðurinn meira að njóta vafans,“ sagði Salah.

„Ég vil ekki kvarta undan þessu því ég vil ekki fá sekt. Mín skoðun á VAR er samt skýr. Mér líkar ekki við VAR,“ sagði Salah.

Myndbandbandadómgæslan, sem er jafnan nefnd VAR í enska boltanum, hefur oft fengið á sig mikla gagnrýni ekki síst þegar verið er að dæma menn rangstæða þegar það sést varla með berum augum. Þá þarf einhverjar línur og millimetra útreikning til að láta sóknarmanninn ekki njóta vafans. Salah er einn af þeim sem er ósáttur með þetta.

Mohamed Salah hefur skorað fimmtán mörk í tuttugu leikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Hann er nú með þriggja marka forystu á næstmarkahæstu menn sem eru Tottenham leikmennirnir Harry Kane og Heung-min Son.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×