Erlent

ESB og AstraZene­ca lofa að leysa deilu sína um bólu­efni eftir krísufund

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bóluefni AstraZeneca er ekki enn komið með markaðsleyfi í Evrópu en búist er við að það fáist á allra næstu dögum.
Bóluefni AstraZeneca er ekki enn komið með markaðsleyfi í Evrópu en búist er við að það fáist á allra næstu dögum. AP/Gareth Fuller

Evrópusambandið (ESB) og bresk-sænska lyfjafyrirtækið AstraZeneca hafa heitið því að leysa deilu sínu um bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskóla gegn Covid-19.

Deilan snýst um breytingar á dreifingaráætlun bóluefnisins og þá staðreynd að AstraZeneca mun ekki geta afhent ESB jafnmarga skammta á þessum ársfjórðungi og það hafði áætlað vegna vandræða sem orðið hafa í framleiðslu bóluefnisins í Evrópu.

Ekki er hægt að segja annað en að forsvarsmenn ESB hafi brugðist illa við þessum breyttu áætlunum AstraZeneca. Þeir kröfðust þess að fyrirtækið stæði við upphaflegu dreifingaráætlunina og myndi beina skömmtum sem ætlaðir væru Bretum til að ESB til að svo mætti vera.

Bóluefni AstraZeneca hefur ekki enn fengið markaðsleyfi í Evrópu en búist er við því að það verði veitt á allra næstu dögum.

Að því er greint er frá á vef BBC hittust forsvarsmenn ESB og AstraZeneca á krísufundi vegna dreifingaráætlunar í gær.

Stella Kyriakides, yfirmaður heilbrigðismála hjá sambandinu, sagðist eftir fundinn harma skort á skýrleika varðandi dreifingaráætlunina.

„Við munum vinna með fyrirtækinu til að finna lausnir á þessu og koma bóluefninu hratt til íbúa ESB,“ sagði hún í færslu á Twitter.

Talsmaður AstraZeneca sagði fyrirtækið tilbúið fyrir enn nánari samvinnu varðandi dreifingaráætlunina á næstu mánuðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×