Enski boltinn

Jón Daði kom inn af bekknum og Wils­here kom Bour­nemouth á­fram gegn D-deildar­liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Wilshere fagnar marki sínu í kvöld.
Wilshere fagnar marki sínu í kvöld. Robin Jones/Getty Images

Jón Daði Böðvarsson lék síðustu 18 mínúturnar í markalausu jafntefli Milwall og Watford í ensku B-deildinni. Jack Wilshere skoraði annað mark Bournemouth í 2-1 sigri á D-deildarliði Crawley Town.

Leikmenn Millwall og Watford fundu enga leið til að þenja netmöskvana í kvöld og því lauk leik liðanna með markalausu jafntefli. Landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson kom inn af varamannabekk Millwall en náði ekki að setja mark sitt á leikinn.

Watford fór upp fyrir Swansea City og upp í 2. sæti deildarinnar. Walesverjarnir eiga þó tvo leiki til góða á Watford og þá á Brentford sem er í 3. sætinu þrjá leiki til góða. Millwall er svo í 15. sæti deildarinnar.

Síðasti leikur 32-liða úrslita FA-bikarsins fór svo fram á suðurströnd Englands þar sem B-deildarlið Bournemouth tók á móti Crawley Town sem leikur í D-deildinni. Crawley eru þó engin lömb að leika sér við en þeir slógu úrvalsdeildarlið Leeds United út í síðustu umferð.

Jack Wilshere er kominn aftur í herbúðir Bournemouth og kom liðinu yfir á 24. mínútu eftir sendingu Norðmannsins Joshua King. Staðan 1-0 í hálfleik.

Tom Nicholls jafnaði metin fyrir gestina í síðari hálfleik en það tók heimamenn aðeins sex mínútur að komast aftur yfir. King með markið að þessu sinni og staðan orðin 2-1. Fleiri urðu mörkin ekki og Bournemouth því komið í 16-liða úrslit FA-bikarsins þar sem það mætir Burnley á útivelli.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×