Innlent

Vilja bíða með útgöngubann og skyldubólusetningu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG og varaformaður velferðarnefndar.
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG og varaformaður velferðarnefndar. vísir/Vilhelm

Velferðarnefnd Alþingis leggur til að heimild til setningar útgöngubanns og skyldubólusetningar á landamærunum verði felldar brott úr frumvarpi til breytinga á sóttvarnalögum.

Að sögn Ólafs Þórs Gunnarssonar, þingmanns VG og framsögumanns velferðarnefndar í málinu, stendur nefndin saman að álitinu og hefur það verið samþykkt með nokkrum fyrirvörum.

Hann segir töluverðar breytingar lagðar til í átta liðum en þær veigamestu lúti að tveimur framangreindum atriðum.

Í frumvarpinu segir að heilbrigðisráðherra geti kveðið á um útgöngubann vegna smithættu í samfélaginu. Ólafur segir þetta íþyngjandi úrræði sem þarfnist frekari umræðu, bæði á Alþingi og í samfélaginu. „Við töldum skynsamlegra að láta það bíða og fara frekar yfir á heildarendurskoðun laganna sem við mælum fyrir í nefndarálitinu að þurfi að fara fram.“

Það sama gildi um heimild til skyldubólusetningar á landamærunum. „Það er ekki þannig í dag að við skyldum fólk til bólusetningar eða meðferðar almennt þannig að við mátum það svo að þetta þarfnaðist ítarlegri umræðu.“

Í umsögn nefndarinnar er einnig mælst til þess að ákvæði verði bætt við lögin um skyldu ráðherra til að gefa Alþingi skýrslu með að minnsta kosti eins mánaðar millibili, hafi faraldur varað lengur en í tvo mánuði. Ólafur bendir á að þetta hafi verið gert í faraldrinum en að eðlilegt sé að lögfesta fyrirkomulagið.

Hann á von á því að málið gangi til umræðu á Alþingi sem allra fyrst, jafnvel á morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×