Erlent

Í­huga að banna út­flutning á bólu­efni til ríkja utan sam­bandsins

Sylvía Hall skrifar
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Thierry Monasse/Getty

Evrópusambandið er sagt íhuga að banna útflutning á bóluefni til ríkja utan sambandsins eftir að AstraZeneca greindi frá töfum í framleiðslu á föstudag. Búist var við hundrað milljónum skammta til aðildarríkja á fyrsta ársfjórðungi, en útlit er fyrir að aðeins helmingur þess skili sér á þeim tíma.

The Guardian greinir frá því að Evrópusambandið sé verulega ósátt við framferði AstraZeneca. Það telur útskýringarnar óásættanlegar og töfin hafi komið verulega á óvart. Magnið sé mun minna en afhendingaráætlun gerði ráð fyrir.

Útlit er fyrir að Lyfjastofnun Evrópu veiti bóluefni AstraZeneca markaðsleyfi fyrir lok vikunnar, en í framhaldinu mun það fá leyfi Lyfjastofnunar Íslands. Greint var frá því fyrr í kvöld að von sé á 13.800 skömmtum af bóluefninu hingað til lands í febrúar ef Evrópuleyfið fæst á föstudag.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, er sögð hafa talað við Pascal Soriot, forstjóra AstraZeneca, símleiðis og ítrekað að fyrirtækið ætti að uppfylla samningsbundnar skyldur sínar. Sambandið hefði tryggt sér skammta fyrir löngu og vildi treysta því að fyrra samkomulag stæðist.

„Hún minnti Soriot á að Evrópusambandið hefði fjárfest umtalsvert í fyrirtækinu fyrirfram einmitt til þess að tryggja að framleiðslan sé klár, jafnvel þó bráðabirgðaleyfi sé ekki komið frá Lyfjastofnun Evrópu,“ sagði talsmaður von der Leyen.

„Auðvitað geta vandamál komið upp í framleiðslu á þessu flókna bóluefni, en við búumst við því að fyrirtækið leiti lausna og kanni alla mögulega kosti til að afhenda þetta fljótlega.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×