Erlent

For­seti Portúgals endur­kjörinn

Atli Ísleifsson skrifar
Marcelo Rebelo de Sousa tók fyrst við forsetaembættinu árið 2016.
Marcelo Rebelo de Sousa tók fyrst við forsetaembættinu árið 2016. Getty/Pedro Fiúz

Marcelo Rebelo de Sousa, forseti Portúgals, var endurkjörinn í forsetakosningunum sem fram fóru í landinu um helgina. Sousa tók við forsetaembættinu fyrir fimm árum og verður þetta hans annað kjörtímabil.

Marcelo, líkt og hann er jafnan kallaður í Portúgal, er 72 ára íhaldsmaður og virðist hafa fengið um 62 prósent atkvæða, nú þegar búið er að telja nær öll atkvæði.

Fyrir kosningar þótti líklegast að Marcelo myndi bera sigur úr býtum, en kosningaþátttaka var mikill óvissuþáttur vegna heimsfaraldursins. Kosningaþátttakan virðist líka hafa verið mjög lítil, eða um 35 prósent.

Ana Gomes, frambjóðandi Sósíalista, fékk næstflest atkvæði, eða rúmlega tólf prósent. Þá fékk frambjóðandi hægriöfgamanna, Andre Ventura, tæplega tólf prósent atkvæða.

Í Portúgal er forsetaþingræði og eru völd forseta því nokkuð meiri en víða annars staðar í álfunni þar sem oft er um valdalítil embætti að ræða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×