Fótbolti

Atlético komið með sjö stiga for­ystu á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Suarez var í stuði í dag eins og svo oft áður.
Suarez var í stuði í dag eins og svo oft áður. Denis Doyle/Getty Images

Atlético Madrid kom til baka gegn Valencia og vann 3-1 sigur er liðin mættust í spænsku úrvalsdeildinni. Lærisveinar Diego Simeone eru þar af leiðandi komnir með sjö stiga forystu á toppi La Liga.

Uros Racic kom gestunum í Valencia óvænt yfir á 11. mínútu er liðin mættust á Estadio Wanda Metropolitano-vellinum í Madríd. Joao Felix jafnaði metin um miðbik fyrri hálfleiks og staðan því 1-1 í hálfleik.

Það var svo hinn geðþekki Luis Suarez sem kom Atlético yfir þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Felix með stoðsendinguna.

Angel Correa gulltryggði svo sigur heimamanna með þriðja markinu þegar átján mínútur voru til leiksloka. Lokatölur 3-1 og Atlético þar af leiðandi komið upp í 47 stig í La Liga. Ásamt því að vera með sjö stiga forskot á toppnum þá á liðið leik til góða á erkifjendur sína í Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×