Fótbolti

Albert lagði upp í mikil­vægum sigri AZ

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert í leiknum í dag.
Albert í leiknum í dag. Soccrates/Getty Images

AZ Alkmaar hafði sætaskipti við Feyenoord í hollensku úrvalsdeildinni eftir 3-2 sigur AZ í leik liðanna í dag. Albert Guðmundsson lagði upp fyrsta mark AZ í leiknum.

Albert er kominn aftur í byrjunarlið AZ og var meðal fremstu manna í dag. Það tók íslenska sóknarmanninn aðeins tíu mínútur að setja mark sitt á leikinn en hann gaf þá á Jesper Karlsson sem kom gestunum í AZ yfir.

Nicolai Jörgensen jafnaði metin þegar rúmur hálftími var liðinn og staðan 1-1 er flautað var til loka fyrri hálfleiks. Það tók AZ aðeins tvær mínútur af síðari hálfleik til að komast yfir. Þar var að verki Myron Boadu.

Adam var þó ekki lengi í paradís og var staðan orðin 2-2 þegar tæplega klukkustund var liðin af leiknum. Mark Diemers jafnaði þá metin fyrir Feyenoord. Boadu kom AZ hins vegar aftur yfir þegar tuttugu mínútur voru til leiks loka. Staðan orðin 3-2 AZ í vil og liðið fékk svo dauðafæri til að tryggja sér sigurinn í uppbótartíma þegar vítaspyrna var dæmd.

Teun Koopmeiners fór á punktinn en brenndi af og lokatölur því 3-2. Albert spilaði allan leikinn hjá AZ sem er nú komið í 4. sæti með 37 stig eftir 18 umferðir. Er liðið nú sjö stigum á eftir Ajax sem situr á toppi deildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.