Hann segir að fólk þurfi að vera undirbúið undir þrjár sviðsmyndir í faraldri kórónuveirunnar. Fyrsta sviðsmyndin sé sú að allt gangi upp og að afhending bóluefnis gangi hratt fyrir sig. Önnur sviðsmyndin er sú að eitthvað komi upp á.
„Og líka að það komi mjög mikið hikst. Annað hvort að bóluefnið virki ekki, það komi alvarlegar aukaverkanir upp þannig menn vilji ekki láta bólusetja sig þannig að það verði kannski tímabundið kannski lítið sem ekkert bóluefni,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
„Ég held að við þurfum að horfa á þessar sviðsmyndir. Auðvitað viljum við fá fyrstu sviðsmyndina en við eigum ekki algjörlega að fara á límingunum ef eitthvað annað gerist.“
Þórólfur var gestur Kristjáns Kristjánssonar í þættinum Sprengisandi í morgun.
Hann telur að það hafi verið skynsamlegt af íslenskum stjórnvölum að fylgja Evrópusambandinu í bóluefnamálum.
„Hvort að Evrópusambandið gerði þetta skynsamlega. Ég þori ekki að leggja dóm á það en menn voru að reyna að tryggja sér hjá þeim sem yrðu fyrstir og frá fleirum en einum,“ sagði Þórólfur.
Landamærin lykillinn að velgengni
Hann ítrekar mikilvægi landamæraskimunar.
„Það er búið að greina tæplega 500 mismunandi afbrgiði af veirunni á landamæurunum þar af hafa tvö til þrjú afbrigði komist inn í landið og valdið okkur þessum vandræðum þannig það sem við höfum verið að gera á landamærunum hefur algjöræega verið lykillinn að því hvernig okkur hefur tekist til,“ sagði Þórólfur.
Tveir greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og var annar þeirra í sóttkví. Átta greindust á landamærunum samkvæmt bráðabirgðatölum.