Innlent

Bráðaofnæmi algengara í tilviki bólusetningar Pfizer en annarra bólusetninga

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

137 tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun vegna gruns um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Sóttvarnalæknir segir rannsóknir sýna að bráðaofnæmi sé algengara í tilviki bóluenis Pfizer en annarra bólusetninga. 

Af þeim 137 tilkynningum hafa borist 97 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun af bóluefninu Pfizer en 40 af bóluefninu Moderna. Níu tilkynningar eru metnar alvarlegar.

Þetta kemur fram á nýrri upplýsingasíðu Lyfjastofnunar vegna bólusetningar gegn Covid-19.

Aukaverkun ekki það sama og verkun

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir gott að bólusetningin veki viðbrögð en þau megi ekki verða of sterk.

„Það virðist vera að þetta bóluefni, og það kom líka fram í þessum rannsóknum sem hafa verið gerðar á bóluefninu, að það er að vekja upp dálítið ónæmissvar sem þýðir það að fólk er að fá kannski hita, beinverki, óþægindi og bólgur á stungustað og svo framvegis. Þetta eru í raun og veru ekki aukaverkanir heldur eru þetta verkanir af bóluefninu.“ 

„Bóluefnið er að gera það sem það á að gera. Það á að ræsa ónæmiskerfið til þess að búa til mótefni og vörn gegn smiti. Við viljum bara að þetta séu ekki of sterk viðbrögð þannig að fólk verði veikt,“ sagði Þórólfur.

Nefnir hann sem dæmi bráðaofnæmi.

„Það er greinilegt út frá rannsóknum að bráðaofnæmi er algengara eftir t.d. Pfizer bóluefni heldur en bóluefni almennt og ég held að þeir sem eru að bólusetja þurfi bara að vera viðbúnir því og grípa til viðeigandi ráða. Við erum ekki að sjá neinar aðrar aukaverkanir og vonandi verður það ekki.“

„Það er greinilegt að þetta bóluefni er virkt og við viljum að það sé virkt, við viljum að það verndi. Og þá þurfum við líka kannski að sjá einhver svona einkenni þegar við erum bólusett,“ sagði Þórólfur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×