Fótbolti

Sara Björk lagði upp er Lyon fór tíma­bundið á toppinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk lagði upp eitt fimm marka Lyon í dag.
Sara Björk lagði upp eitt fimm marka Lyon í dag. Giuseppe Cottini/Getty Images

Sara Björk Gunnarsdóttir lagði upp eitt marka Lyon í 5-0 útisigri á Paris FC í dag. Sigurinn lyftir Lyon aftur upp í toppsæti frönsku úrvalsdeildarinnar en Paris Saint-Germain á leik til góða og getur því náð toppsætinu á nýjan leik.

Landsliðsfyrirliðinn var í byrjunarliði Evrópu- og Frakklandsmeistara Lyon í dag sem byrjaði leikinn af miklum krafti. Dzsenifer Marozsán kom gestunum yfir strax á 7. mínútu leiks og fjórum mínútum síðar tvöfaldaði Nikita Parris forystu þeirra. Lagði Sara Björk upp markið.

Amel Majri kom Lyon þremur mörkum yfir eftir rúman hálftíma leik og staða því 3-0 í hálfleik. Nikita Parris og Wendie Renard bættu við mörkum í síðari hálfleik er Lyon vann einstaklega öruggan 5-0 sigur.

Sara Björk lék allan leikinn á miðju meistaranna sem eru eins og áður sagði komnir á topp frönsku úrvalsdeildarinnar. Liðið hefur unnið 12 af þeim 13 leikjum sem það hefur spilað í deildinni til þessa. PSG er þó ekki langt undan og getur náð toppsætinu á nýjan leik vinni það leikinn sem það á til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×