Fótbolti

Varnar­­maður sem Chelsea hafði ekki not fyrir farinn á láni til topp­liðs Ítalíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tomori hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Chelsea, allavega í bili.
Tomori hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Chelsea, allavega í bili. Darren Walsh/Getty Images

Oluwafikayomi Oluwadamilola - eða einfaldlega Fikayo - Tomori er genginn í raðir AC Milan á láni frá Chelsea út tímabilið. Að láninu loknu getur Mílanó-liðið fest kaup á varnarmanninum fyrir 25 milljónir punda.

Fikayo Tomori er 23 ára gamall enskur varnarmaður sem hefur alls leikið 27 leiki með Chelsea frá árinu 2016. Þá hefur hann verið á láni hjá Brighton & Hove Albion, Hull City og Derby County undanfarin ár.

Ljóst er að Frank Lampard – þjálfari Chelsea – hefur ekki not fyrir Tomori þar sem Thiago Silva, Kurt Happy Zouma, Antonio Rüdiger og Andreas Christensen eru fyrir framan hann í goggunarröðinni.

Tomori skrifaði undir fimm ára samning við Chelsea í kringum afmælisdag sinn í desember 2019 en á svipuðum tíma lék varnarmaðurinn sinn fyrsta landsleik fyrir A-landslið Englands. Síðan þá hefur hann ekki átt upp á pallborðið hjá þjálfara Chelsea og hefur hann nú verið lánaður til toppliðs Ítalíu, AC Milan.

Fari svo að lánið gangi vel mun ítalska félagið festa kaup á leikmanninum næsta sumar.

Fyrsti leikur Tomori með AC Milan gæti verið á morgun er Atalanta heimsækir Mílanó. Leikurinn verður í beinni útsendingu Stöð 2 Sport 4.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×