Atalanta skellti topp­liði Milan, marka­laust hjá Inter og Roma vann í marka­leik

Duvan Zapata og Cristiano Piccini fagna þriðja marki Atalanta í dag.
Duvan Zapata og Cristiano Piccini fagna þriðja marki Atalanta í dag. Marco Luzzani/Getty Images

Þremur leikjum er lokið í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. AC Milan tapaði 0-3 á heimavelli fyrir Atalanta, Inter gerði markalaust jafntefli við Udinese á útivelli og Roma vann 4-3 sigur á Spezia.

Stórleikur dagsins var leikur toppliðs AC Milan og Atalanta. Heimamenn komust aldrei almennilega inn í leikinn og kom Cristian Romero gestunum yfir á 26. mínútu leiksins, staðan 0-1 í hálfleik.

Þegar átta mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fengu gestirnir vítaspyrnu. Josep Ilicic fór á punktinn og skoraði með spyrnu sem fór hálfpartinn undir Gianluigi Donnarumma í marki AC Milan.

Það var svo Duvan Zapata sem gulltryggði sigur Atalanta eftir góða sókn á 77. mínútu. Lokatölur á San Siro-vellinum í Mílanó 0-3 gestunum í Atalanta í vil.

Lærisveinum Antonio Conte í Inter Milan tókst ekki að nýta sér mistök nágranna sinna en liðið gerði markalaust jafntefli við Udinese á sama tíma og AC Milan tapaði á heimavelli. Þá vann Roma sigur á Spezia í markaleik eins og áður sagði.

Roma var 3-1 yfir á 55. mínútu leiksins en gestirnir jöfnuðu er venjulegur leiktími var að renna út. Í uppbótartíma skoraði Lorenzo Pellegrini hins vegar fjórða mark Roma og tryggði þeim sigur í frábærum leik.

AC Milan trónir enn á toppi deildarinnar þegar deildin er hálfnuð, liðið er með 43 stig eftir 19 leiki. Inter kemur þar á eftir með 41stig og Roma er svo í þriðja sætinu með 37 stig. Atalanta er svo í fjórða sæti með 36 stig.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.