Innlent

Sex mánaða dómur fyrir að keyra á nágranna sinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar Valur Björgvinsson má ekki brjóta af sér næstu tvö árin ella fer hann í sex mánaða fangelsi.
Ragnar Valur Björgvinsson má ekki brjóta af sér næstu tvö árin ella fer hann í sex mánaða fangelsi. Vísir

Landsréttur staðfesti í dag sex mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir Ragnari Val Björgvinssyni fyrir að hafa ekið á nágranna sinn Hreggvið Hermannsson í desember 2017. Dómur var kveðinn upp klukkan 14 og staðfesti Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari niðurstöðuna í samtali við fréttastofu.

Nágrannarnir hafa staðið í miklum deilum í áraraðir á Langholti 1 og Langholti 2 í Flóa og hafa ásakanir og kærur gengið fram og til baka í þeim efnum.

Ragnar var sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa ekið á Hreggvið þar sem hann stóð í heimreiðinni að heimili Ragnars. Voru afleiðingarnar þær að Hreggviður endaði uppi á húddi bílsins. Hörfaði Hreggviður í framhaldinu undan bílnum með hendur á húddinu en endaði aftur uppi á bílnum.

Þá ók Ragnar á milli trjágróðurs og út á aðliggjandi tún með Hreggvið á húddinu. Lauk öllu saman með því að Hreggviður féll af bílnum og varð undir vinstra afturhjóli hans. Hlaut hann ýmis sár við þetta.

Grannarnir hafa átt í langvarandi deilum og hefur þeim endurtekið verið gerð skil í fjölmiðlum, allt aftur til ársins 2014. Deilan snýst í grunninn um landspildu eftir makaskipti á tveimur jörðum árið 1987.

Fjallað var um deilur grannanna í fréttum Stöðvar 2 árið 2014.

Ragnar bar því við að hann hefði verið að verjast árás Hreggviðs umrætt sinn og því hefði verið um sjálfsvörn að ræða. Hvorki héraðsdómur né Landsréttur féllst á rök verjanda Ragnars. Í niðurstöðu héraðsdóms árið 2019 nefndi dómarinn í niðurstöðu sinni sérstaklega áralangar deilur þeirra félaga. Þær réttlæti ekki beitingu ofbeldis af hálfu Ragnars umrætt sinn.

Var hann dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða Hreggviði granna sínum 700 þúsund krónur í miskabætur.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.