Innlent

Dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að keyra viljandi á nágranna sinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnar Valur Björgvinsson má ekki brjóta af sér næstu tvö árin ella fer hann í sex mánaða fangelsi.
Ragnar Valur Björgvinsson má ekki brjóta af sér næstu tvö árin ella fer hann í sex mánaða fangelsi. Vísir
Ragnar Valur Björgvinsson hefur verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að aka á nágranna sinn Hreggvið Hermannsson í desember 2017. Nágrannarnir hafa staðið í miklum deilum á Langholti 1 og Langholti 2 í Flóa og hafa ásakanir og kærur gengið fram og til baka í þeim efnum.

Ragnar var sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa ekið á Hreggvið þar sem hann stóð í heimreiðinni að heimili Ragnars. Voru afleiðingarnar þær að Hreggviður endaði uppi á húddi bílsins. Hörfaði Hreggviður í framhaldinu undan bílnum með hendur á húddinu en endaði aftur uppi á bílnum.

Þá ók Ragnar á milli trjágróðurs og út á aðliggjandi tún með Hreggvið á húddinu. Lauk öllu saman með því að Hreggviður féll af bílnum og varð undir vinstra afturhjóli hans. Hlaut hann ýmis sár við þetta.

Grannarnir hafa átt í langvarandi deilum og hefur þeim endurtekið verið gerð skil í fjölmiðlum, allt aftur til ársins 2014. Deilan snýst í grunninn um landspildu eftir makaskipti á tveimur jörðum árið 1987.

Frétt Stöðvar 2 frá því 2014 má sjá að neðan.

Klippa: Styrjöld milli nágranna í Flóanum nær ótrúlegum hæðum
Ragnar bar við að hann hefði verið að verjast árás Hreggviðs. Að um sjálfsvörn hefði verið að ræða en á það féllst dómarinn í málinu ekki. Ræddi dómarinn í niðurstöðu sinni sérstaklega áralangar deilur þeirra félaga. Þær réttlæti ekki beitingu ofbeldis af hálfu Ragnars umrætt sinn.

Var hann dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða Hreggviði granna sínum 700 þúsund krónur í miskabætur. Nánar má kynna sér dóminn hér.


Tengdar fréttir

Kærir sveitarstjóra fyrir handvömm í starfi sínu

Miklar deilur hafa staðið yfir í Flóahreppi milli ábúaenda á Langholti 1 og 2 vegna landamerkja. Nú hefur íbúi á Langholti 1 kært sveitarstjóra fyrir að stinga gögnum undir stól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×