Enski boltinn

Arsenal fær markvörð sem missti sætið sitt hjá Brighton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mat Ryan er alsæll með vistaskiptin til Arsenal enda stuðningsmaður félagsins.
Mat Ryan er alsæll með vistaskiptin til Arsenal enda stuðningsmaður félagsins. getty/Stuart MacFarlane

Arsenal hefur fengið markvörðinn Mat Ryan á láni frá Brighton út tímabilið. Rúnar Alex Rúnarsson færist því væntanlega neðar í goggunarröðina hjá Arsenal.

Ryan hefur verið aðalmarkvörður Brighton undanfarin ár en missti sæti sitt í byrjunarliði liðsins á þessu tímabili.

Hinn 28 ára Ryan hefur leikið 58 leiki fyrir ástralska landsliðið og lék með því á HM 2014 og 2018.

Ryan kemur í stað Matts Macey sem fór til Hibernian í Skotlandi í síðustu viku. Gera má ráð fyrir því að Rúnar Alex verði núna þriðji markvörður Arsenal á eftir Bernd Leno og Ryan.

Ástralinn er stuðningsmaður Arsenal og var því afar ánægður að ganga í raðir félagsins eins og hann greindi frá á Twitter í dag.

Næsti leikur Arsenal er gegn Southampton í 4. umferð ensku bikarkeppninnar á morgun. Arsenal hefur unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum í öllum keppnum og gert eitt jafntefli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.