Fótbolti

Bayern staðfestir kaup á Karólínu: „Getur ekki sagt nei við svona félag“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í landsleik Íslands og Lettlands þar sem hún skoraði sitt fyrsta landsliðsmark.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í landsleik Íslands og Lettlands þar sem hún skoraði sitt fyrsta landsliðsmark. vísir/vilhelm

Bayern München hefur gengið frá kaupunum á íslensku landsliðskonunni Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur frá Breiðabliki. Hún skrifaði undir þriggja ára samning við þýska stórliðið.

„Ég er stolt og ánægð að spila fyrir Bayern München í framtíðinni. Það hefur alltaf verið draumur minn að leika sem atvinnumaður á svona háu getustigi. Leikmennirnir hér eru meðal þeirra bestu í heimi og ég er mjög spennt fyrir þessum nýja kafla í mínu lífi og vera hluti af Bayern-fjölskyldunni,“ sagði Karólína við heimasíðu Bayern.

„Þegar jafn sterkt lið og Bayern vill fá þig geturðu ekki sagt nei. Ég var að leita að nýrri áskorun fyrir mig og er ánægð að hafa fundið hana í München.“

Karólína kom til Breiðabliks frá FH haustið 2017. Hún varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari með Blikum.

Karólína, sem er nítján ára, kom inn í íslenska landsliðið í undankeppni EM 2022 og vakti athygli fyrir frammistöðu sína. Hún hefur leikið fjóra A-landsleiki og skorað eitt mark.

Dagný Brynjarsdóttir lék með Bayern 2015 og varð Þýskalandsmeistari með liðinu.

Bayern er sem stendur á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með fullt hús stiga eftir tólf umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×