Trump óskaði eftir því nokkrum dögum áður en embættistíð hans lauk að fjölskylda hans muni áfram njóta verndar leyniþjónustunnar, þeim að kostnaðar lausu, í sex mánuði til viðbótar. Forsetinn fyrrverandi mun hafa undirritað tilskipun þess efnis að því er Washington Post greinir frá, en tilskipunin nær til þrettán fjölskyldumeðlima sem ekki eiga sjálfkrafa rétt á áframhaldandi öryggisgæslu í boði leyniþjónustunnar.
Samkvæmt lögum eru Donald Trump, eiginkona hans Melania og fjórtán ára sonur þeirra þau einu sem ættu að eiga rétt á áframhaldandi þjónustu leyniþjónustunnar eftir að embættistíð hans er lokið. Sem fyrrverandi forseti á Trump rétt á gæslu út alla sína lífstíð og kona hans sömuleiðis, en sonur þeirra aðeins þar til hann nær sextán ára aldri.