Erlent

Ma sendi frá sér stutt myndband en sást síðast í október

Samúel Karl Ólason skrifar
Jack Ma er einn ríkasti maður Kína.
Jack Ma er einn ríkasti maður Kína. EPA/AHMAD YUSNI

Kínverski auðjöfurinn Jack Ma ávarpaði hóp kennara í Kína í myndbandi sem birt var í morgun og var það í fyrsta sinn sem hann sést opinberlega frá því í október. Við það hækkuðu hlutabréf í félagi hans, Alibaba, verulega.

Ma sást síðasta opinberlega þann 24. október þegar hann var staddur á ráðstefnu í Sjanghæ. Þar gagnrýndi hann reglukerfi Kína harðlega og leiddi það til deilna við embættismenn. Skömmu seinna var áætlað að skrá félag hans, fjármálafyrirtækið Ant Group, á markað og halda fyrsta útboð verðbréfa, en yfirvöld í Kína stöðvuðu það.

Áður hafði útboðið þó verið heimilað.

Umræða um hvar Ma væri niðurkominn fór á fullt fyrr í mánuðinum þegar í ljós kom að búið var að skipta honum út sem dómara í afrískum sjónvarpsþáttum sem hann stýrði.

Myndbandið sem um ræðir var einungis 50 sekúndur að lengd en þrátt fyrir það hækkuðu hlutabréf í Alibaba um rúm tíu prósent, samkvæmt frétt Reuters.

Endurkoma Ma á sjónarsviðið hefur vekið mikla athygli í Kína enda er hann mjög áhrifamikill. Þó hann hafi stigið til hliðar innan fyrirtækisins sjálfs stýrir hann Alibaba og Ant í rauninni og er í forsvari fyrir félögin á erlendri grundu.

Sjá einnig: Ríkasti maður Kína heimsótti Ísland

Alibaba er til rannsóknar vegna meintra samkeppnisbrota og eins og áður hefur komið fram var fyrsta útboð verðbréfa Ant Group stöðvað. Þar að auki var félaginu skipað að draga úr umsvifum sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×