Erlent

Breska af­brigðið verði orðið ráðandi í mars

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna telur að útbreiðsla afbrigðisins muni setja aukið álag á þegar lemstrað heilbrigðiskerfi.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna telur að útbreiðsla afbrigðisins muni setja aukið álag á þegar lemstrað heilbrigðiskerfi. Chip Somodevilla/Getty

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, varar nú við því að afbrigði kórónuveirunnar sem talið er meira smitandi en flest önnur, og var fyrst uppgötvað í Bretlandi, verði orðið ráðandi afbrigði veirunnar í Bandaríkjunum fyrir marsmánuð.

Stofnunin telur það geta sett enn meira álag á heilbrigðiskerfi landsins, sem þegar hefur reynt mikið á.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu og vísar til skýrslu frá CDC. Þar segir að 76 einstaklingar, í tíu mismunandi ríkjum Bandaríkjanna, hafi greinst með „breska afbrigðið,“ sem opinberlega hefur fengið heitið B 1.1.7.

Reiknilíkan sóttvarnastofnunarinnar er þá sagt benda til þess að útbreiðsla afbrigðisins muni fara í veldisvöxt og það verði orðið ráðandi afbrigðið í Bandaríkjunum í mars, það er að segja, útbreiddara en nokkuð annað afbrigði veirunnar.

Bandaríkin eru það ríki heims sem hefur komið verst út úr faraldri Covid-19. Þar hafa yfir 24 milljónir greinst með kórónuveiruna og yfir 400 þúsund látið lífið af völdum hennar. Þann 12. janúar síðastliðinn létust 4.491 manneskja af völdum veirunnar í Bandaríkjunum. Aldrei hafa fleiri látist úr Covid-19 í Bandaríkjunum á einum degi.

Tvö önnur afbrigði kórónuveirunnar eru talin meira smitandi en það afbrigði sem fyrst greindist og tók að dreifa sér um heiminn. Þau koma frá Suður-Afríku og Brasilíu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.