Erlent

Mót­mæla vegna dauða manns sem lést í haldi lög­reglu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælendur kasta steinum í átt að lögreglu.
Mótmælendur kasta steinum í átt að lögreglu. AP Photo/Francisco Seco

Hundruð mótmæltu í Brussel í gær vegna dauða 23 ára gamals manns, sem lést í haldi lögreglu um síðustu helgi. Mótmælendur kveiktu meðal annars í lögreglustöð og réðust að bíl Filippusar konungs.

Talsmaður lögreglunnar sagði í morgun að fjórir lögreglumenn hafi særst í óeirðunum og um hundrað voru handteknir. Fjórir hafa verið settir í gæsluvarðhald, þar af tveir undir lögaldri, en þeir eru grunaðir um að hafa kveikt elda. 

Samkvæmt lögreglu söfnuðust um fimm hundruð manns saman nærri lögreglustöðinni Brussels-North vegna dauða mannsins, sem er þeldökkur, belgískir fjölmiðlar kalla Ibrahima B.

Maðurinn var handtekinn á laugardagskvöld eftir að hafa flúið lögreglu, sem var að rannsaka möguleg brot á sóttvarnareglum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu missti Ibrahima meðvitund eftir að hann var fluttur á lögreglustöð og var síðar fluttur á spítala. Hann var úrskurðaður látinn klukkan 20:22 að staðartíma, rétt rúmum klukkutíma eftir að hann var handtekinn.

Óljóst er hver orsök dauða hans voru en rannsókn vegna málsins er þegar hafin.

Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan lögreglustöðina, sem Ibrahima er sagður hafa verið fluttur á, í gærkvöldi og kröfðust sannleikans um dauðann áður en mótmælin breyttust í óeirðir.

Annelies Verlinden, innanríkisráðherra Belgíu hefur fordæmt atburði gærkvöldsins og sagði hún þá „óásættanlega.“ Þá ítrekaði hún að rannsókn á dauðsfallinu sé þegar hafin.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.