Bretar eru eins og aðrir í Evrópu að glíma við mikla aukningu á smitum í landinu og mikil aukning hefur einnig orðið á smitum hjá leikmönnum og starfsmönnum ensku úrvalsdeildarinnar.
Aston Villa bættist í hóp með Newcastle, Fulham og Manchester City sem hafa öll þurft að glíma við hópsmit á síðustu vikum. Smitin tvöfölduðust milli vikna eftir að hafa fjölgað einnig mikið í vikunni á undan.
Leikmenn og starfsmenn ensku úrvalsdeildarinnar fara nú í kórónuveirupróf tvisvar í viku en það hefur ekki verið alveg nóg í baráttunni við kórónuveiruna.
Sean Dyche believes footballers should be vaccinated in order to re-distribute the vast money spent on coronavirus testing each week in the Premier League back to the NHS
— Sky Sports News (@SkySportsNews) January 7, 2021
Sean Dyche, knattspyrnustjóri Jóhanns Berg Guðmundssonar og félaga í Burnley, hefur ákveðna skoðun á því sem sé best að gera á þessum krefjandi tímum.
Dyche vill nefnilega bólusetja alla ensku úrvalsdeildina og hætta þessum sífelldum prófunum. Sá peningur sem sparast með því á að hans mati að fara í að styrkja heilbrigðiskerfið.
„Þegar við horfum á alla þá peninga sem fara í smitpróf í ensku úrvalsdeildinni þá ætti sá peningur miklu frekar að fara í heilbrigðiskerfið og vinnuna við bólusetningarnar. Það hlýtur að vera betra en að vera að prófa leikmenn tvisvar til þrisvar í viku,“ sagði Sean Dyche.
Sean Dyche er þekktur fyrir að fara aldrei í felur með skoðanir sínar og það nær líka út fyrir fótboltann.
„Við skulum samt hafa það alveg á hreinu og það er fólk mun framar á listanum en fótboltamenn. Ég er ekki nálægt því að leggja það til að fótboltamenn ættu að vera settir fram fyrir fólk í áhættuhópum. Það sem ég er að segja að það væri miklu betra að fá þetta fjármagn sem fer í öll þessi próf þangað sem það hjálpar okkur við að auka framleiðslu bóluefnis,“ sagði Dyche.